Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsti leikurinn 
flautaður af vegna óláta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 15. september 2023 kl. 06:47

Fyrsti leikurinn 
flautaður af vegna óláta

Eftir stutta viðkomu hjá Öster í sænsku B-deildinni hefur vinstri bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson tekið skref upp á við og gengið til liðs við knattspyrnufélagið Willem II sem leikur í næstefstu deild Hollands. Rúnar Þór Sigurgeirsson kemur úr Garðinum og hóf sinn knattspyrnuferil með Víði. Rúnar skipti yfir í Keflavík þegar hann var á eldra ári í fimmta flokki og lék með Keflavík þar til hann gekk til liðs við Öster eftir síðasta tímabil. 

„Mamma var ekki á því að leyfa mér að skipta úr Víði fyrr en ég byrjaði í ellefu manna bolta, þ.e. í fjórða flokki. Svo skiptu Edon [Osmani] og Ingimundur [Aron Guðnason] yfir í Keflavík þegar við vorum á eldra árinu í fimmta flokki eldri og þá vorum við kannski þrír á æfingu í Víði. Þá varð mamma að gefa eftir – en það var erfitt fyrir hana,“ segir Rúnar.

Ferillinn hefur tekið á flug, hvernig gekk þér að aðlagast atvinnumennskunni?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það var mjög auðvelt að komast inn í allt hjá Öster, sérstaklega af því að ég hafði Alex Þór Hauksson sem er jafnaldri minn og var búinn að vera þarna í tvö ár á undan mér. Svo var Tufa náttúrlega þjálfari,“ segir Rúnar sem kunni vel við sig í Svíþjóð.

„Þetta var frekar vinalegur bær sem ég bjó í, stutt í allt og mér leið vel þar. Þetta var ekkert alltof ólíkt því sem maður er vanur heima. Hérna í Hollandi er allt miklu stærra og meira – mér líður meira eins og ég sé í útlöndum,“ segir hann en Rúnar býr í Tilburg sem er í suðurhluta Hollands.

„Þetta er ljúft, það er búið að vera þrjátíu stiga hiti hér alla vikuna. Það var reyndar kalt í dag, bara 27 gráður,“ segir Rúnar og það er ekki laust við að það hlakki aðeins í honum.

Skilur við Öster í þriðja sæti B-deildarinnar

„Deildin í Svíþjóð er búin stuttu á eftir okkar heima, hún byrjaði 4. apríl og ég held að síðasti leikur sé 14. október. Það eru leiknar þrjátíu umferðir í Svíþjóð með smá stoppi í júní þar sem menn fá tíu daga til tveggja vikna frí, þá er hásumar og það var gott að geta kíkt aðeins heim til Íslands til að hitta vini og fjölskyldu.“

Þú stóðst þig vel hjá Öster.

„Já, já. Ég var alveg sáttur með minn tíma þar þó hann hafi ekkert verið alltof langur. Ég hef bara þannig metnað að mig langar alltaf að taka stærra og stærra skref. Eins og hérna í Hollandi, ef ég stend mig vel hérna þá opnast ennþá stærri gluggi fyrir mig. Eins og ég segi þá hef ég mikinn metnað að ná langt í fótbolta og ætla mér það.“

Þú varst vanur að leggja hart að þér við æfingar þegar þú varst hjá Keflavík en finnst þér þú hafa tekið miklum framförum í atvinnumennskunni þó þetta sé nú ekki orðinn langur tími?

„Algjörlega. Þegar ég var hjá Keflavík var maður alltaf að vinna með boltanum þó það væri engin erfiðisvinna. Svo vorum við alltaf að æfa hálfsex á daginn, menn kannski að slefa inn í klefa úr vinnu rétt fyrir æfingu. Í Svíþjóð þurftum við að vera mættir klukkutíma fyrir æfingu og hálftíma fyrir æfingu var prehab [æfingar til að fyrirbyggja meiðsli]. Það er miklu meiri undirbúningsvinna.

Hérna byrjum við morgnana ýmist sjálfir í prehab en stundum er prehab fyrir allt liðið. Ég er venjulega mættur 8:15 og ef það er liðsprehab þá byrjar það hálfníu. Morgunmatur er klukkan hálftíu og svo taka við fundir, liðs- og einstaklingsfundir, sjúkraþjálfun og síðan er æfing klukkan ellefu. Dagurinn endar svo á hádegismat klukkan hálftvö. Oftast erum við svo lausir eftir mat en dagarnir geta auðvitað verið breytilegir. Þeir sem þurfa að fara í nudd og svoleiðis gera það eftir mat því það gefst of lítill tími um morguninn í þess háttar hluti. Við erum með þrjá sjúkraþjálfara og einn nuddara þannig að allt er í toppstandi hérna.“

Rúnar segir að hjá Willem II sé allt miklu stærra en það sem hann var vanur úr Keflavík. „Æfingarnar hérna eru krefjandi og langar en ég er fljótur að aðlagst breyttum aðstæðum, maður er í þessu til að ná sem mestu út úr þessu.“

Upplifun í fyrsta leik

Rúnar hefur verið í tvær vikur hjá Willem II og segir að móttökurnar sem hann hafi fengið séu mjög góðar. Þá sé stemmningin í hollenska boltanum alveg mögnuð og hann fékk smjörþefinn af því strax í fyrsta leik. 

„Í dag er ég búinn að vera hérna í tvær vikur og líkar það mjög vel. Allir hafa tekið vel á móti mér og svo var auðvitað smá upplifun í fyrsta leik þar sem ég var á bekknum. Leikurinn var stoppaður af því að stuðningsmennirnir okkar voru að kasta blysum inn á völlinn. Það gerðist oftar en einu sinni svo leikurinn var blásinn af og leikinn tveimur dögum síðar án áhorfenda. Það var í fyrsta skipti sem maður upplifir eitthvað svona, ég spilaði leik með Öster sem var blásinn af út af veðri og spilaður daginn eftir. Mig langar ekki að vera að kvarta yfir þessu því stemmningin á leikjunum hérna er eitthvað annað, það er svo gaman að spila fyrir svona.“

Hvað eru margir áhorfendur á svona leikjum?

„Ég held að völlurinn taki sextán þúsund manns og það eru yfirleitt svona þrettán, fjórtán þúsund á leikjunum. Leikurinn sem var blásinn af var nágrannaslagur og ég spurði hvort þetta væri alltaf svona eða bara af því að þetta væri nágrannaslagur. Þetta er alltaf svona og það sýndi sig líka í síðasta leik. Þvílík stemmning, maður hefur ekki upplifað svona áður.“

Það hlýtur að vera skemmtilegt að spila fyrir svona áhorfendur.

„Algjörlega. Eins þegar liðið skorar, maður heyrir varla í sjálfum sér. Þetta gefur manni auka.“

Willem II hefur leikið tvo leiki síðan Rúnar gekk til liðs við félagið. Fyrri leikinn byrjaði hann á bekknum en kom inn á undir lok leiks í stöðunni 4:1. „Ég fékk einhverjar sex, sjö mínútur og það er erfitt að gera eitthvað á þeim tíma. Ég lék svo allan leikinn á föstudaginn sem við unnum 2:1.“

Og þú áttir einhvern þátt í þeim sigri.

„Já, ég átti stoðsendingu og vat mjög nálægt því að skora.“

Draumurinn að spila fyrir Ísland

Keflvíkingarnir Rúnar Þór Sigurgeirsson og Ísak Óli Ólafsson léku báðir sinn fyrsta A-landsleik þegar þeim var skipt inn á í vináttulandsleik Íslands og Mexíkó í lok maí 2021. Rúnar vonar að nú þegar hann er kominn í sterkari deild auki það möguleika hans á að leika fyrir Íslands hönd á ný.

„Það er draumurinn. Mann langar alltaf að vera valinn í landsliðið en það var óraunhæft þegar ég var að spila með Öster í næstefstu deild Svíþjóðar. Ég tel mig hafa betri möguleika á landsliðssæti á meðan ég er hérna, sérstaklega ef ég spila alla leiki og stend mig vel í þeim þá tel ég mig eiga ágætis möguleika á að vera valinn í landsliðið. Eins og ég segi þá er það draumurinn að spila reglulega fyrir Ísland.“

Hvað er svo markmiðið, hvað ætlarðu langt?

„Hvað á maður að segja? Ég ætla að hafa engar hömlur og komast sem allra lengst. Ef maður horfir í framtíðina þá er draumurinn að spila í ensku úrvalsdeildinni, það er kannski langsótt en það er ekki ár síðan ég var í Keflavík og er kominn hingað. Ef ég geri vel hérna þá opnast kannski aðrar dyr. Það hafa svo margir góðir leikmenn spilað hérna; Frankie de Jong, Alexander Isak, Virgil van Dijk, Sami Hyypiä og ég gæti talið miklu fleiri upp. Willem II er stór klúbbur á hollenskan mælikvarða og endaði í fimmta sæti 2020 en er kominn í næstefstu deild núna. Stuðningsmennirnir eru ekki ánægðir að vera í næstefstu deild, þannig að markmiðið er að fara upp – og ef maður fer upp hérna þá er maður kominn í hollensku úrvalsdeildina sem er auðvitað risastórt svið.“

En hvernig er staðan á þér sjálfum, ertu í toppformi?

„Já, ég myndi segja að ég væri í toppstandi. Búinn að jafna mig á meiðslunum sem ég átti við í fyrra, fór í aðgerð við kviðsliti í maí í fyrra og það hefur ekkert verið að trufla mig eftir að ég var búinn að jafna mig.“

Heyrðu, þú verður að pakka í tösku!

„Lovísa [Guðjónsdóttir], kærastan mín, var hjá mér um helgina en ég er ekki enn kominn með íbúð og það er svolítið erfitt að vera með unga dóttir okkar á hóteli. Sérstaklega þar sem hótelið er aðeins fyrir utan borgina, smá keyrsla á æfingar og ég er bara með einn bíl. Þannig að það væri erfitt ef þær væru fastar á hótelinu.“

Rúnar segir að kærastan og dóttirin kunni þessu líferni vel þó það reyni svolítið á þær báðar. „En ég er virkilega þakklátur fyrir þær báðar, sérstaklega Lovísu fyrir að styðja mig í einu og öllu. Það er erfitt fyrir hana eins og þegar félagsskiptin komu upp, þá var Öster búið að hafna einhverjum fjórum tilboðum í mig og ég segi henni að þetta gerist örugglega ekki í sumar, glugginn var að lokast eftir fjóra daga. Svo fer ég á æfingu daginn eftir og er kallaður á fund með íþróttastjóranum sem segir að þeir séu búnir að samþykkja tilboð í mig. „Þeir vilja fá þig út í dag eða á morgun.“

Ég hringi í Lovísu, nýbúinn að segja henni að þetta sé ekki að fara að gerast. „Heyrðu, þú verður að pakka í tösku – við erum að fara.“ Þannig að það fór smá stress í gang en Lovísa er frábær og hefur hjálpað mér helling, bæði innan vallar og utan. Við erum gott lið og ég reyni að segja henni á hverjum degi hvað hún á stóran þátt í að ég sé hérna í dag en ekki að spila einhversstaðar uppi á Íslandi,“ sagði Rúnar Þór að lokum.

Rúnar lagði upp mark og var valinn í lið vikunnar í síðustu umferð þegar Willem II vann 2:1 heimasigur á Maastricht. Myndir af Facebook-síðu Rúnars.